Mjúkt JÓGA, útivist, heilsuefling, fræðsla og slökun í fjöllum malagahéraðs á Spáni

Útijóga, gönguferðir, hugleiðslur, jóga nidra djúpslökun, fræðsla um ayurveda lífsvísindin, spjall um meltingu og næringu, heilandi grænmetisfæði, nudd, magnesium- og leirbað, söguspjall um márana á Spáni, gaman saman út að borða í Gaucín og ekki má gleyma sólbaðinu!

1. - 8. MAÍ 2024

Komdu með í heilsueflandi ferð til Andalúsíuhéraðs á Spáni. Farið verður í göngur um fjöllin og korkskóginn, mjúkt jóga á morgnana í jógatjaldinu, yoga nidra leidd liggjandi djúpslökun á kvöldin, nudd og leirbað fyrir þá sem vilja.

Við höfum fræðsluspjall einn daginn um áhrif næringar á andlega og líkamlega heilsu út frá hinum fornu indversku lífsvísindum ayurveda og hver og einn fær aðstoð til að finna út sína meðfæddu líkamsgerð skv ayurveda fræðunum.

Að þessu sinni hefst námskeiðið í hinu heillandi fjallaþorpi Gaucín sem er nærri El Colmenar þar sem heilsubúgarðurinn Casa Rural Ahora er staðsettur. Í Gaucín notum við tækifærið og höfum söguspjall um márana á Spáni sem settu ærlegt mark sitt á landið með nær átta alda valdatíma sem einkenndist af blómstrandi menningu, framþróun í vísindum og efnahagslífi. Í Gaucín gefst tími til að skoða kastalann sem á rætur að rekja til tíma Rómverja en var mikilvægt virki á tíma máranna. Í Gaucín verður farið út að borða á veitingastað þar sem stórkostlegt útsýni gefur matnum aukið vægi, en hægt er að sjá ljósin í Afríku, hinum megin Gíbraltarsundsins í kvöldrökkrinu.

Næsta dag gerum við léttar æfingar fyrir morgunverð áður en lagt er af stað í göngu niður fjallið til þorpsins El Colmenar þar sem heilsubúgarðurinn Casa Rural Ahora er staðsettur. Þar verður síðan dvalið næstu sex nætur.

Slökun í lok morgunjóga.

Við lítum á þessa viku í fjöllunum sem næringu fyrir líkama og sál, og máltíðirnar eru því heilsubætandi grænmetisréttir sem bæði eru afar ljúffengir og heilandi fyrir meltingarveginn.

Hver og einn kemur sér sjálfur til Malaga. Þess má geta að flugfélagið Play og Heimsferðir hafa oft boðið upp á beint flug til Malaga. Einnig er flogið beint til Madrid með Icelandair og frá Madrid er hægt að taka þægilega hraðlest sem tekur 2,5 klst, beint til Malaga. Eða einfaldlega millilenda í Köben eða London og þaðan beint flug til Malaga :) Allskyns leiðir.

Á staðnum eru jógamottur en gott er að koma með eitt létt flísteppi og púða með sér fyrir jóga nidra djúpslökunina á kvöldin. Ef pláss er í töskunni er líka sniðugt að stinga einum jógakubb niður.

Skipt er um handklæði einu sinni eða tvisvar í viku á herbergjunum. WC pappír og náttúruleg sápa er á baðherbergjunum. það má nefna að sápan er framleidd á staðnum og algerlega laus við aukaefni. Þar sem þetta er svokölluð ,,sveita ferðamennska" eða turismo rural, er ekki sami lúxusinn eins og á hótelherbergjum í borgum. Það er því ekki þrifið daglega og enginn ísskápur inn á herbergjum. Þetta er búgarður í miðri náttúrunni, við endimörk þorpsins El Colmenar sem er í Malaga héraði. Áin Guadiaro rennur fram hjá búgarðinum og í garði nágrannans eru kindur oft á beit rétt við jógatjaldið. Ávaxtatré þar sem vaxa sítrónur og appelsínur eru ræktuð á Casa Rural Ahora og er jógatjaldið í miðri þessari náttúrudýrð.

Umsagnir frá síðustu ferðum:

* Yndi að aftengja sig. Losna við áreiti, ekkert sjónvarp, nánast engar búðir, ávextir á trjám, kindur og hestar á beit, fiskar í ánni en dásamlegt að vaða og/eða baða sig, frábær og heilsusamlegur matur, litlar eðlur á vappi, morgun og kvöld jógatímar, gönguferðir, slökun, sólbað, samvera og svo líka smá af Malaga og margt fleira. (Sigrún Brodda)

* Frábær ferð í alla staði og mikil upplifun, mjög góður matur. Ferðin var mjög nærandi fyrir líkama og sál. Heiða er yndisleg og fær kennari. Ég upplifði og lærði fullt af nýjum og áhugaverðum hlutum. Ein besta ákvörðun (Birgitta Maggý)

* Maður upplifir náttúruna i öllu sínu veldi og nærist á likama og sál. Mæli sannarlega með þessari ferð ❤ (Unnur Ósk)

* Yndisleg vika og Heiða svo dedikeruð og fær kennari að það var auðvelt að láta leiða sig bara í gegnum jógað og hugleiðsluna og njóta. (Unnur Birna)

* Mæli heilshugar með þessari ferð. Frábær upplifun, bæði andlega og líkamlega nærandi í yndislegu umhverfi . Heiða er frábær jógakennari og fræðari 🧘‍♀️ (Ingigerður Maggý)

* Mæli sko sannarlega með þessari ferð, var þarna síðasta sumar og það var DÁSAMLEGT!! (Vigdís)

* Þetta var æðisleg ferð...mæli svo mikið með (Theodóra Björk)

* Mæli 100% með þessari ferð. Fór með dásamlegum hóp þarna síðasta sumar. (Rakel Hrund)

* Mæli með þessu. Fór í fyrra og það var frábært. Staðurinn, maturinn, fólkið, jógað kvölds og morgna, göngutúrarnir. (Hrafnhildur Ósk)

Ekkert bragðast eins vel og safi sem maður útbýr sjálfur. Tínir appelsínurnar af trjánum og kreistir síðan safann úr þeim.

Dagskrá:

  • 1. maí: Allir hittast við rómversku rústirnar í miðbæ Malaga kl 10:00. Töskurnar er best að geyma á hótelinu þar sem gist var nóttina áður. Við göngum lítinn hring um miðbæinn og setjumst í bröns nærri rómversku rústunum með útsýni til Alcazaba márakastalans. Í labbinu verður sýnt hvar rútan nær í okkur síðar um daginn. (H.C. Andersen styttan)

  • 1. maí: Rúta sækir okkur kl.14:30 og lagt í hann til fjallaþorpsins el Gaucín sem er 1,5 klst akstur.

  • Í Gaucín verður gengið um bæinn og kannski kíkt á Arnarkastala (Castillo del Agila), sem er kastali frá tíma Rómverja sem er í útjaðri bæjarins. Aðeins um 10-20 mín ganga. Farið út að borða saman um kvöldið á stað með stórkostlegu útsýni yfir til Marokkó í Afríku. Gist í Gaucín.

  • 2. maí: Morgunæfingar. Morgunverður og síðan gengið frá Gaucín til Casa Rural. Þetta er um 3-4 klst ganga og að mestu niður á við. Lagt af stað um kl. 10:00 - 10:30. Bíll kemur að sækja farangur og ferja hann niður til Casa Rural Ahora.

  • 2-8 maí: Námskeið í Casa Rural Ahora. Jóga, hugleiðsla, öndunaræfingar, djúpslökun, nudd, leirbað, göngur og fræðsluerindi.

  • Dagskráin í Casa Rural Ahora hefst í jógatjaldinu 2. maí kl. 17:00 með kynningarhring. Kvöldmatur kl. 19:30.

  • Dagskrá lýkur miðvikudaginn 8. maí eftir morgunjóga og morgunverð. Rúta sækir hópinn kl. 12:00. Komið til Malaga um kl. 14:00

  • Hver dagur hefst á jóga, hugleiðslu og stuttri slökun í jógatjaldinu frá 8:00 - 9:30

  • Morgunverður kl. 9:45 - 10:30

  • Hádegisverður kl. 14:30-15:30 (aðal máltíð dagsins)

  • Kvöldverður kl. 19:30 - 20:30 (létt máltíð s.s. súpa og/eða eldað grænmeti og salat)

  • Alla daga er frjáls tími fram að hádegisverði nema daginn sem við tökum fræðsluspjallið. Stundum er farið í göngu fyrir hádegisverð. Aðra daga fara þeir í nudd eða leirbað, sem það eiga bókað. 

  • Eftir hádegisverð er frjáls tími fram að kvöldverði. Nudd eða leirbað hjá þeim sem það eiga bókað. Hægt að ganga niður að á, synda og sóla sig.

  • Fræðsla 3. maí eftir morgunverð: Áhrif næringar og lífsstíls á andlega og líkamlega heilsu og kosti þess að styðja við hreinsun líkamans.  Aðferð Ayurveda við hreinsun líkamans er útskýrð og rætt um mismunandi líkamsgerðir og hvernig ákveðið fæði og lífsstíll hentar fólki misvel. Dæmi tekið af ketó, köldum böðum, hot yoga og föstum og fleiru sem ekki er gott fyrir alla.

  • Alla dagana verður hreinsandi og meltingaraukandi kryddte í boði í anda ayurveda.

  • Jóga Nidra leidd liggjandi djúpslökun og spilað á tónskálar kl. 20:45 - 21:30

  • Reykingar eru ekki leyfðar innan búgarðsins.

  • Kaffi verður ekki í boði í Casa Rural Ahora þar sem það vinnur gegn heilsubótarmarkmiðum ferðarinnar. En fyrir þá sem vilja fá sér sopann sinn eru nokkur kaffihús í þorpinu. Aðeins 3-4 mínútur að ganga frá búgarðinum.

Leiðangursstjórarnir Heiða Björk og Þröstur við Hrægammagljúfur

Ekki þarf að hafa reynslu af jóga til að taka þátt.

Jógakennari og leiðangursstjóri er Heiða Björk Sturludóttir, leiðsögumaður, umhverfisfræðingur, framhaldsskólakennari, jógakennari, ayurveda sérfræðingur og næringarþerapisti. Henni til aðstoðar er Þröstur Sverrisson, umhverfissagnfræðingur og leiðsögumaður.

Verð í tveggja manna herbergi:  215. 000 kr.

 (Að því gefnu að ekki verði stórkostleg hækkun á evrunni sem núna (ágúst) er um 145 krónur. Ef hún hækkar yfir 155 evrur þarf að hækka verðið á ferðinni um sem því nemur)

Verð í fjögurra manna herbergi: 170.000 kr

Verðskilmálar: Greiða þarf staðfestingargjald að upphæð 70.000 kr. fyrir 15. október 2023.

Ganga þarf frá eftirstöðvum um miðjan mars.

Ekki er endurgreitt ef forföll eru tilkynnt eftir 16. mars 2024. Ef afbókað er fyrir þann tíma er öll upphæðin endurgreidd fyrir utan staðfestingargjaldið. Ef óviðráðanlegar aðstæður koma upp t.d. vegna veikinda verður ferðin endurgreidd að fullu fyrir utan staðfestingargjaldið.

INNIFALIÐ: 

  • Gisting og morgunverður í fjallaþorpinu Gaucín

  • Gisting og fullt fæði í Casa Rural Ahora heilsubúgarðinum

    • Morgunverður, hádegisverður og kvöldverður á meðan á dvöl stendur (Grænmetisfæði)

    • Efnaskiptate í anda ayurveda í boði alla dagana í Casa Rural Ahora

    • Filterað vatn til drykkjar

  • Morgunjóga (kundalini yoga, mjúkt jóga og yin yoga, öndunaræfingar og hugleiðsla)

  • Jóga nidra leidd liggjandi djúpslökun á kvöldin. Spilað á söngskálar í lokin.

  • Jógamottur

  • Næringar- og heilsufræðsla í anda ayurveda lífsvísindanna indversku með stöku fræðslupunktum úr vestrænni næringarþerapíu

  • Sögufræðsla um veldistíma máranna á Spáni (Heiða kenndi sögu máranna í 15 ár í framhaldsskóla og er höfundur kennsluefnisins)

  • Gisting í tveggja- og þriggja manna herbergjum með baði. Eitt fjögurra manna herbergi í boði líka.

  • Handklæði, sápa og sængurfatnaður. (skipt um einu sinni á meðan á dvöl stendur eða oftar ef þörf krefur)

  • Fimm göngur með leiðsögn:

    • Gengið frá Gaucín til Casa Rural Ahora (3-4 klst)

    • Í Casa Rural Ahora: Ein létt ganga (um 1 klst). Tvær lengri göngur; önnur um 3 klst og talsverð hækkun og síðasta gangan er rúmar 3 klst með stoppum, að hinu dásamlega fallega Hrægammagljúfri. Þangað göngum við síðasta daginn með nesti og böðum okkur í tærri ánni.

  • Rúta upp í fjöllin 1. maí og aftur til baka 8. maí.

  • Flutningur á farangri frá Gaucín á meðan hópurinn gengur niður til Casa Rural Ahora.

EKKI INNIFALIÐ:

  • Flug til Malaga

  • Gisting og bröns þann 1. maí í Malagaborg

  • Nudd og leibað í Casa Rural Ahora (nuddið kostar 35-40 evrur og leirbaðið um 18-20 evrur. Nákvæmt verð verður tilbúið í haust)

  • Kvöldverður í Gaucín og nesti til að taka með í gönguna niður til Casa Rural Ahora.

Hitastig í El Colmenar þorpinu fyrri part maí, er vanalega 22-25 gráður yfir daginn.

Þeir sem vilja framlengja dvölina í Malaga eftir að námskeiðinu í fjöllunum er lokið verður bent á margvíslega spennandi möguleika eins og að ganga hinn magnaða stíg Caminito del Rey

Nánari upplýsingar og skráning  í síma 8650154 og í tölvupósti til:  heida@heidabjork.com