Nóvember 2016

Kinn- og ennisholubólgur eru hvimleiðar.  Eins og við svo mörgum öðrum kvillum getur hreyfing og mataræði hjálpað.

Aukin hætta á sýkingum í ennis- og kinnholum ásamt nefi og eyrum getur fylgt mikilli slímmyndum af völdum vissra matvæla. Mikil slímmyndun getur hægt á flæði sogæðavökvans sem á að hreinsa úrgangsefni frá frumum og vefjum líkamans.

Hjá viðkvæmum geta eftirfarandi matvæli verið slímmyndandi: kúamjölkurvörur, kornvörur, einkum glútenríkt korn eins og hveiti, sykur, salt, kartöflur, bananar og rófur. Egg og appelsínur geta einnig verið slímmyndandi hjá þeim sem eru mjög viðkvæmir.  

Mikil slímmyndun og hægt flæði sogæðavökva getur þannig leitt til bjúgs, stíflaðs nefs, eyrnabólga, kinn- og ennisholubólgna í viðkvæmu fólki. Því getur verið ráðlegt að lágmarka heildarinntöku þessara matvæla og sjá hvort ástandið batni ekki. Stundum nægir að láta eingöngu mjólkurvörurnar eiga sig. 

Til að örva flæði sogæðavökvans þarf reglulega hreyfingu, þar sem sogæðakerfið hefur ekki pumpu eins og hjartað fyrir blóðrásarkerfið. Sogæðavökvinn flæðir við samdrátt vöðva og nægir að ganga rösklega í um 30 mínútur á dag eða ástunda einhverja aðra hreyfingu eftir smekk hvers og eins s.s.  ganga, skokka, dansa, stunda leikfimi eða jóga. Þeir sem eru með ,,hreinuna" á háu stigi geta þrifið húsið og garðinn af miklum móð og fá fínt flæði sogæðavökva um leið og þrifið er inní skápa eða baðkarið skrúbbað.

Þurrburstun húðarinnar getur einnig  örvað flæði sogæðavökvans. Hægt er að fá mjúka baðbursta eða baðhanska í apótekum, heilsubúðum og mörgum stórmörkuðum. Burstað er frá enda útlima (fingrum og tám) í hringlaga strokum í átt að hjarta. Hvor handleggur fyrir sig og hvor fótleggur fyrir sig. Síðan strokið í hringlaga strokum í kringum geirvörtur eða brjóst og hringlaga strokum yfir kvið. 

Djúpöndun getur einnig örvað flæði sogæðavökvans þar sem þindin, sem þá þrýstis betur upp og niður en vanalega, örvar sogæðar og eitla sem liggja í brjóstholinu. 

Hægt er að nudda háls, höfuð og herðar til að hjálpa til við losun sogæðavökva úr höfði, eins og sýnt er á þessum vef Massage Today. Sogæðarnar liggja mjög grunnt undir yfirborði húðar og því krefst svona ,,sjálfsnudd" ekki mikillar orku, snertingin er mjög létt og hægt að fara í gegnum allar þessar æfingar liggjandi í rúminu á aðeins um 15 mín.

Vissar jógaæfingar geta örvað flæði sogæðavökva frá höfði og þannig minnkað líkur á uppsöfnun úrgangsefna sem geta leitt til sýkingar í ennis- og kinnholum. Sjá t.d. þetta sett af jógaæfingum á vef Yoga Journal.

Að auki má nota jurtina sólhatt til að vinna gegn sýkingum efri öndunarveg (dropar settir út í vatn og drukkið) og styrkja ónæmiskerfið með t.d. C vítamíni, hvítlauk og engifer.