AYURVEDA 101 - KRYDD, JURTIR OG BRÖGÐIN SEX

MÁNUDAGUR 7. mars, kl. 17:30 - 20:00

Verður haldið í Systrasamlaginu, Óðinsgötu 1.

Skráning fer fram á vefsíðu Systrasamlagsins.

Kennari: Heiða Björk Sturludóttir, ayurveda sérfræðingur

Verð 13:500 kr

Sérlega fræðandi og skemmtilegt námskeið með Heiðu Björk Sturludóttur, Ayurveda Practitioner sem kláraði nýlega nám við Kerala Ayurveda Academy og er því líklega sá Íslendingur sem hefur sótt mesta menntun um ayurveda.

 

Á þessi síðdegisnámsskeiði verður farið ofan í saumana á því hvernig við getum létt okkur og lífið í gegnum lækningajurtir, krydd og mat með tilliti til hverrar líkamsgerðar.  Hugmyndir um heilunarmátt krydda og jurta í ayurveda fræðunum ganga út á það að hvert innihaldsefni sem notað er í matargerð eða er tekið inn feli í sér  mismunandi eiginleika sem ýta undir heilbrigði mannsins. Þessir eiginleikar birtast í mismunandi bragðtegundum sem eru sex talsins.

 

Fjallað verður um bragðtegundirnar sex sem finnast í öllum mat, kryddum og jurtum. Útskýrt verður hvaða eiginleika hver bragðtegund býr yfir, þ.e. hvaða áhrif á líkamann hún hefur. Virkar hún hreinsandi á líkamann og þá sérstaklega á blóð og lifur, eða er hún með mikinn næringarmátt og er notuð til uppbyggingar á líkamanum?  Það eru bragðtegundirnar sem ayurveda lítur til, frekar en prótein, kolvetni, fita og kaloríur þegar verið er að velja heilnæma fæðu sem viðheldur jafnvægi í líkamanum. Enda eru vestræn læknavísindi farin að viðurkenna að það er fleira en kaloríur sem skipta máli þegar útskýra á þyngdaraukningu eða velja mat sem hjálpar til við að grennast.

 

Á námskeiðinu verður fjallað um undirstöðuatriðin í ayurveda lífsvísindunum og síðan stokkið yfir í jurtirnar og kryddin og útskýrt hvernig hægt er að nota þessi næringarefni til að vinna markvisst að heilsubót.

 

Um leið verður horft til þess að vorið er í vændum sem er helsti hreinsunartími ársins. Hvað bera að hafa í huga á vorin þegar kapha eykst í náttúrunni og okkur sjálfum.

 

Ýmislegt verður til sölu sem ayurveda fræðin nota til að styrkja kerfi líkamans bæði jurtir og krydd, olíur og ghee.

  • Kitchari réttur og turmerik latte innifalið

  • Þátttakendum býðst ayurvedaráðgjöf með 20% afslætti.

Nánari upplýsingar hjá Heiðu Björk, heida@heidabjork.com