Nóvember 2016 

Tíu ár liðin og enn í bata.

Sagan af drengnum sem var með Tourette, ADHD, þráhyggju og félagskvíða.
(Greinin birtist á mbl.is 13. ágúst 2016)

 

Drengurinn minn greindist með Tourette fyrir 10 árum síðan. Þá var hann 9 ára gamall. Einkenni hans voru slæm og komu m.a. í veg fyrir að hann gæti gengið mikið meira en í 5-10 mínútur samfellt vegna krampa í mjöðmum og höfuðreiginga, og námsgetu fór hrakandi. Hann var með félagskvíða og þráhyggju sem ollu honum miklum vandræðum í daglegu lífi. Þegar læknirinn hans sagði tíma kominn á að setja drenginn á lyf, ákváðum við að fara aðra leið og breyta mataræði drengsins og lífsstíl sem gekk betur en við þorðum að vona, því tveimur mánuðum síðar voru allir kækir horfnir. Það tók þó lengri tíma að vinna á geðræna þættinum, en félagskvíðinn og þráhyggjan minnkuðu þó smá saman og voru að mestu horfin fjórum árum síðar.

Ári síðar skrifaði ég greinina Annar lífstíll – annað líf á mbl.is og lengri útgáfu fyrir Heilsuhringinn. Greinarnar skrifaði ég upprifin yfir skjótum bata drengsins sem ég vildi deila með öðrum sem kannski væri líkt á komið fyrir.

Ég fór í viðtal á Stöð 2 um bata án lyfja og var með erindi hjá ADHD-samtökunum og Náttúrulækningafélaginu í kjölfarið. Mikil var gagnrýnin sem ég fékk frá fámennum hópi fólks á vefmiðlum, en mun meira heyrði ég þó frá fólki sem gladdist fyrir hönd drengsins sem náði bata frá Tourette-einkennum á aðeins tveimur mánuðum. Þeir voru ófáir sem höfðu samband við mig og fengu ráð til að geta reynt hið sama fyrir sín börn.

Gagnrýni fámenna hópsins varðaði það að ég héldi lyfjum frá barninu. Virtist þá engu máli skipta að hann náði bata án þeirra og þar að auki á undraskjótan hátt. Lyfin sjálf hefðu ekki einu sinni getað náð þetta góðum árangi. Aðeins haldið einkennum í skefjum með mögulegum aukaverkunum.

Drengurinn er nú á tuttugasta aldursári, á fjölda góðra vina, gengur vel í námi, lauk framhaldsskóla í vor og hyggur á háskólanám.  Kippir og kækir sem einkenna þá sem eru með Tourette eru víðsfjarri og það þarf mikið að ganga á til að agnarögn (tíðar ræskingar eða blikk í augum) komi aftur. Það gerist kannski einu sinni á ári eftir mikið hreyfingarleysi, óreglulegan svefn og sukk í sykri og skyndibitamat.

Í þeirri von að aðrir megi upplifa þá gleði sem fylgir því að sjá barnið sitt ná bata, bendi ég á þessa staðreynd: Mataræði og lífstíll hefur heilmikið að segja og lyf eru ekki eina lausnin við Tourette og skyldum röskunum eins og fólki er stundum talin trú um.

(Greinin Annar lífstíll, annað líf má lesa hér á þessum vef www.heidabjork.com undir Fræðsla.)